Skólastjóri við Kvíslarskóla
Mosfellsbær óskar eftir að ráða skólastjóra við Kvíslarskóla. Kvíslarskóli er unglingaskóli fyrir nemendur í 7.-10. bekk og tekur skólastarfið mið af menntastefnu Mosfellsbæjar, Heimurinn er okkar.
Í Kvíslarskóla eru um 360 nemendur og um 60 starfsmenn en skólinn var stofnaður árið 2021 þegar Varmárskóla var skipt í tvo skóla.
Í Kvíslarskóla er lögð áhersla á fjölbreytta kennsluhætti þar sem m.a. hópastarf, tækni, lestur og leiðsagnarnám eru höfð að leiðarljósi. Jafnframt hefur verið horft sérstaklega til þróunarverkefna í skólastarfinu og ber þar hæst „Flipp flopp í skapandi skólastarfi“. Verkefnið einkennist af samþættingu og nýstárlegum vinnubrögðum af hálfu nemenda og kennara auk samspils upplýsingatækni og kennslufræðilegra hugmynda í námi.
Leitað er að metnaðarfullum og lausnamiðuðum einstaklingi sem býr yfir leiðtogahæfileikum og hefur víðtæka reynslu og þekkingu á skólastarfi. Viðkomandi þarf að hafa brennandi áhuga á vellíðan og farsæld barna og unglinga, stjórnun og forystu, framsækinni skólaþróun og framúrskarandi skólastarfi. Mikilvægt er að viðkomandi geti leitt umbætur og framþróun í samræmi við stefnumótun Mosfellsbæjar.
